Rannsóknir

Eitt af aðalhlutverkum Náttúrufræðistofu Kópavogs er að stunda rannsóknir, ásamt því að safna náttúrufræðilegum gögnum, skrá þau og varðveita með vísindalegum hætti. Þetta kemur mörgum á óvart, enda er rannsóknarhluti starfseminnar ekki fyrir eins opnum tjöldum og sýningarstarfið.

Rannsóknir Náttúrufræðistofunnar beinast fyrst og fremst að lífríki í ferskvatni og þá aðallega í stöðuvötnum. Rannsóknaverkefnin eru orðin fjölmörg og er ýmist um að ræða verkefni sem stofan stendur ein að eða vinnur í samvinnu við innlenda og erlenda aðila.

Umfang rannsóknaverkefnanna er afar misjafnt, allt frá því að afla einfaldra grunnupplýsinga um ástand lækjar eða tjarnar, yfir í verkefni sem spanna tugi vatna á landsvísu þar sem úrvinnsla tekur mörg ár. Einnig er um að ræða langtíma vöktunarverkefni þar sem beitt er fremur einföldum aðferðum sem þó þurfa að endurspegla grunnþætti í vistkerfi viðkomandi vatns.

Hér að neðan verður fjallað um helstu rannsóknarverkefni sem Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur komið að.

Lífríkisúttektir

Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur í gegnum tíðina lagt mikla áherslu á rannsóknir á lífríki stöðuvatna. Umfang þessara verkefna hefur verið mjög misjafnt en oft hefur verið um að ræða þjónustuverkefni fyrir sveitarfélög og framkvæmdaraðila. Oftast eru þetta einsskiptis rannsóknir, en stundum er um að ræða endurtekningu á eldri rannsóknum í þeim tilgangi að kanna hvort breytingar hafa átt sér stað. 

Lífríkisúttektum lýkur með útgáfu skýrslu til verkkaupa þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum verkefnisins og eru skýrslurnar oftast nær opnar almenningi. Hér að neðan eru nokkur dæmi um lífríkisúttektir sem Náttúrufræðistofan hefur staðið að.

Vöktunarverkefni

Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur í gegn um tíðina tekið þátt í vöktunarverkefnum sem snerta ýmis svið vatnalíffræðinnar.

Með hugtakinu vöktun (monitoring) er átt við reglulega sýnatöku og/eða mælingu á tilteknum þætti/þáttum. Vöktun getur bæði falið sér þéttar mælingar í skamman tíma (t.d. eitt ár) eða mælingar með lengra millibili í langan tíma (a.m.k. nokkur ár).

Þátturinn sem vaktaður er þarf að vera mikilvægur í viðkomandi kerfi og helst fremur auðveldur og hagkvæmur að fylgjast með. Hér er að finna umfjöllun um vöktunarverkefni sem Náttúrufræðistofan hefur komið að og helstu niðurstöður þeirra.

Stór samstarfsverkefni

Undir þennan flokk falla verkefni þar sem Náttúrufræðistofan vinnur með fleiri rannsóknastofnunum að umfangsmiklum verkefnum. Afurðir þessara verkefna geta ýmist verið á formi lokaskýrslu, gagnagrunns eða verfsjár. 

Þau gögn sem safnast í verkefnum sem þessum mynda oft grunn að námsverkefnum til meistara eða doktorsgráðu og hefur vatnaverkefnið skilað þó nokkrum slíkum námsverkefnum.

Mat á umhverfisáhrifum

Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur framkvæmt nokkrar rannsóknir í tengslum við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, oftar en ekki í tengslum við fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir. Þessar rannsóknir hafa ýmist verið unnar eingöngu af Náttúrufræðistofunni eða í samvinnu við aðrar rannsóknastofnanir s.s. Háskóla Íslands og Veiðimálastofnun, sem nú hefur sameinast Hafrannsóknarstofnun. 

Hér að neðan eru nokkrar rannsóknir vegna umhverfismats sem Náttúrufræðistofan hefur komið að.

Aðrar rannsóknir

Undir þennan flokk falla samantektarskýrslur og ýmsar rannsóknir sem ekki falla beinlínis undir hina flokkana. Hér má einnig finna niðurstöður rannsókna sem unnar hafa verið af utanaðkomandi aðilum fyrir Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Consent Management Platform by Real Cookie Banner